Umsagnir: Matarkjallarinn

„Einn sá besti. Ljúfir píanótónar, góð stemning, flott þjónusta og frábær matur.“

30. nóvember 2023

Ljúfir píanótónar og góð stemming tók á móti okkur þremur – Hákoni Þór, Pétri Arkitekt og Daníel, fulltrúa vaxandi vegan hóps.

Við hófum leikinn á fordrykkjum; hefðbundnum Viking Jólabjór og óáfengum kokteil sem kom aðeins á óvart.

Áfengur jóla-gimlett með gini hafði þó algerlega vinninginn👍.

Við fórum tveir í fjögurra rétta jólaveislu (kr. 11.900) og einn í Vegan jól (kr. 9.790). Heimabakað brauð með kanilskotnu smjöri kom okkur í gírinn fyrir það sem koma skyldi.

Reykta sellerírótarsúpan með vel útpældu bragði var ljómandi góður vegan forréttur.

Hreindýra carpaccio var mun betra en maður er vanur sagði Hákon vanur maður, en bað um svartan pipar eins og vana-lega, sem ætti að bjóða sjálfkrafa en nær engir veitingastaðir gera.

Rauðrófu carpaccio var mun betra en grænkerinn var vanur; skemmtilega létt og súrsað, sama fannst okkur hinum.

Aðalréttir var annars vegar safaríkur og góður byggréttur að mati grænkera, með kóngasveppum og gljáðu graskeri. Aðrir voru sammála, hve lúmskt góður hann væri.

Gljáð lambafillet fyrir okkur tvo var borið fram með laufabrauði, seljurót, fennel og soðgljáa. Óaðfinnanlegt og langt, langt yfir landsmeðaltal sagði Hákon sá reynslumesti!

Rauðvínið með matnum sem þjónnin valdi sló ekki í gegn hjá Hákoni en fransklærða arkitektinum þótti það parast vel við lambið. Þessu var kippt í liðinn með góðu rauðvíni frá Toscana.

Eftirréttir voru hvítt súkkulaði, og þurrkaður sítrónusorbet með jólasnjó allt steinlá þetta. Þjónusta reynslumikils þjóns ættuðum af Vestfjörðum var afbragðs góð. Hann og Hákon reyndust báðir hafa verið í sveit í Hrunamannahrepp, í því mikla Framsóknar og lambavígi, me, me.

Hann var einstaklega úrræðagóður og snöggur. Þjónustan varð brokkgengari þegar að Vestfirðingurinn fór af vaktinni, svo sem að fyllla á glös, taka af borðum og fleira 🙁

Heildarupplifun kvöldsins staðfesti þó enn á ný að Matarkjallarinn er einn af allra bestu veitingastöðum landsins! – og þó leitað væri víðar 🙂

Segðu okkur þína skoðun á Facebook

Farðu á síðuna

Facebook Comments