Umsagnir: Hereford Steikhús

„Frábær matur og þjónusta. Gott virði fyrir peninginn.“

12. desember 2023

Einn elsti veitingastaður bæjarins, kom mikið á óvart, ekki síst hjá þeim tveimur í fjögurra manna teyminu, sem ekki höfðu komið áður.

Staðurinn er rúmgóður og smekklega innréttaður en án þess að menn hafi farið frammúr sér. Andrúmsloftið þægilegt og ekki þrengir að borðum🙏.

Nösk augu og eyru tveggja reynslumestu í teyminu urðu þess fljótt áskynja að aðalþjónarnir tveir voru faglærðir og fagmenn fram í fingur – góma. Í raun besta tvennan af veitingastöðum heimsóttum á árinu. Sama átti eftir að koma í ljós með meistarakokkinn – hoknum af reynslu víðsvegar af landinu – ekkert lambaket þar á ferð 🙂 . Við komum hvergi að tómum kofanum hjá honum enda sá mun eldri en tvæ-vetur 🤏

Við fórum í Villibráðar- Jólaveislu, þar af einn veganseðill (kr. 10.500).
Forréttir: Reyktur lundi ásamt bláberjasultu, grafin gæs sem var jólaleg og mjúkt anda confit. Þetta kom okkur í mikinn jólagír. Hereford salatið í vegan búningi við hefði mátt “spæsa” eitthvað upp, fremur flatt.

Aðalréttur: Hreindýr og dádýr voru frammúrskarandi, og hurfu eins og dögg fyrir sól í vit okkar, hraðinn var slíkur að ekki gátu allir í teyminu bragðað – og stundum áður en náðist að ljúka mynd. Hrefnan olli ekki vonbrigðum og vel yfir landsmeðaltali, en að mati tveggja var svigrúm til að poppa hana upp með meira bragði, hvítlauk, kryddum o.s.frv.

Vegan aðalrétturinn var hnetusteik sem teymið var sammála um að hefði toppað kjötmetið. Og verið betri en á öllum stöðunum sem við prófuðum í fyrra fyrir jól. Þetta var þar til auka aðalrétturinn var borinn á borð, dúnmjúk hrossalund sem sló algerlega öll met. Þar var enginn bykkja á ferð.

Eftirréttir: Súkkulaðikaka sem bráðnaði í munni í bland við ís og rjóma og vegan útgáfan var eplakaka með ís. Báðir réttir virkilega góðir.

Vínpörunin þar sem við fengum vín hússins færði lundann, gæsina og hrefnuna upp á æðra stig.

Þetta voru Herleg-heit á Here-ford. Frábær þjónusta faglærðra þjóna hafði mikið að segja., en slíkt vantar á alltof marga staði (sum staðar meira ráðið eftir útliti).

Seðillinn er mun betra virði fyrir peninginn en gengur og gerist 🙂.

Segðu okkur þína skoðun á Facebook

Farðu á síðuna

Facebook Comments