SUÐURLANDSFERÐ, REYKJAVÍK TIL HAFNAR; MATUR, GISTING OG AFÞREYING
Pistillinn sem er í lengri kantinum segir frá góðri þriggja nátta ferð um Suðurland frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði þegar ferðast var utan háannar og verðlag því lægra og mun minna um ferðamenn. Lýsingin getur vonandi gefið fólki góðar hugmyndir og sniðugt gæti verið að prenta textann út og taka hann með í ferðalagið.
Þemað að þessu sinni er að gera góð kaup og segja frá jákvæðri upplifun. Samkeppni um ferðamanninn er mun meiri á þessum árstíma en yfir háönn og verðlag því miklu lægra, jafnvel meira en helmingi lægra fyrir gistingu. Sá sem hér skrifar hefur ferðast í fjölda ára um landið og hefur því góðan samanburð. Almennt eru nokkur atriði eftirtektarverð:
i) Fagmennska eykst með hverju árinu,
ii) Fjöldi erlendra starfsmanna fer vaxandi, bæði á hótelum og veitingastöðum. Pólskir starfsmenn eru algengastir, en næst koma Tékkar og síðan Ungverjar. Oft er þetta háskólamenntað fólk sem kemur til Íslands til að vinna fyrir launum, jafnvel ár eftir ár. Að dæma eftir samtölum við þessa starfsmenn eru launin hér 4-6 sinnum hærri en þeir fá í sínu landi!
iii) Í þriðja lagi er konum greinilega að fjölga meðal hótelstjóra og stjórnenda. Yfirleitt fannst mér gæta meiri fagmennsku, samviskusemi og natni við gesti þar sem konurnar voru við stjórnvölinn en gengur og gerist meðal minna kynbræðra Þetta átti við á öllum þremur gististöðunum í þessari ferð. Gaman er líka að geta þess að á öllum þessum stöðum var starfsfólkið augljóslega ánægt og vel gert við það í mat, húsnæði og launum.
Í þessari ferð var ekið aðra leiðina tekin góður bílaleigubíll hjá Budget bílaleigu, þjónusta og fleira var góð, bílnum var svo skilað á Höfn á flugvellinum þar.
Fyrsti áfangastaðurinn var (1) Hótel Borealis í Grímsnesinu rétt hjá Írafossvirkjun og Úlfljótsvatni. Umhverfið kom aðeins á óvart þarna, sem og hlýleg húsakynni hótelsins. Þar fengum við í kvöldmat, sem framleiddur var af faglegum íslenskum yfirþjóni, óvenju vel úti látna fiskisúpu, með góðu og sérstöku bragði og bakaða sellerírót, skemmtilegan rétt sem kom á óvart. Verðið var hóflegt. Í aðalrétt völdum við svín og lamb. Eins og myndin sýnir var í báðum tilfellum um að ræða afar stóra skammta, snyrtilega fram borna með meðlæti sem tónaði vel við matinn. Báðir réttirnir stóðust alveg samanburð við betri staði í höfuðborginni og ekki síður skaplegt verðið á bjórnum, aðeins 900 kr. fyrir stórann Gull. Þetta er því kjörinn staður fyrir þá sem vilja gera sér dagamun án þess að fara of langt frá borginni eða sem áfangastaður á leiðinni eitthvað lengra (svo sem fyrir erlendra ferðamenn).
Daginn eftir lá leiðin austur á bóginn gegnum Selfoss og Hvolsvöll, með myndastoppi við Seljandsfoss. Á Hvolsvelli var stansað á hinu tilkomumikla „Lava center“ sem opnað var í fyrra, og kíkt á (2) KÖTLU MATHÚS fyrir myndatöku. Vinalegur rekstrarstjóri bauð okkur að bragða á réttum en þarna eru í boði ein bestu kaup á landinu miðað við kvöldverð (sama verð er reyndar allan daginn). Er það hlaðborð, með súpu, salati, heitum réttum, kjöti og góðum fiski, meðlæti og fleira fyrir aðeins kr. 3.690, en einnig er hægt að fá rétt dagsins á kr. 1.990. Vingjarnleg tékknesk þjónustustúlka svaraði aðspurð að slíkt hlaðborð í hennar landi myndi eflaust kosta um 3.000 kr.
Einnig var litið inn á hinn rótgróna söluskála (3) BJÖRKINA HVOLSVELLI, þar sem “þjóðlegt hlaðborð” er í boði á aðeins kr. 1.990 kr. með kaffi. Þennan dag var afar góður plokkfiskur á borðum með meðlæti, mun betri og fiskmeiri en vaninn er og því fyllilega hægt að mæla með þessum stað.
Næsta mynd er frá jöklagöngu með íslenskum fjallaleiðsögumönnum á (3,5) Sólheimajökli, fínni afþreyingu sem upplögð er til myndatöku fyrir erlenda ferðamenn. Svo lá leiðin að Skógum undir hinum grænu Eyjafjöllum. Þar var að venju mikið af ferðamönnum. Hægt er að gera þar mjög góð kaup á (4) FOSSBÚÐ SKÓGUM á fisk og frönskum á aðeins kr. 1,790. Hef ég sjaldan séð stærri skammt sbr. mynd!
Á VÍK þeim vinsæla ferðamannastað var í fyrra opnaður nýr veitingastaður (5) ICECAVÉ, í sama húsnæði og Icewear. Þetta er stór og rúmgóður staður í eigu sömu, traustu rekstraraðila og Víkurskáli og Iceland hotel staðarins.
(6) HÓTEL LAKI Gististaðurinn aðra nótt var Hótel LAKI sem er í afar fögru umhverfi, um fimm km frá Klaustri, ekið inn í landið. Herbergið var fallegt og vel hugsað um smáatriðin til að láta gestum líða vel. Verð utan háannar hjá booking.com var aðeins um 12.000 með morgunverði. Þarna snæddum við á flottum veitingastað og fengum annars vegar ljúffenga klausturbleikju og hins vegar góðan lambapottrétt. Í eftirrétt var góður chi-fræja ís. Áberandi á þessu hóteli var hversu fagmannlegt hið erlenda starfsfólk var. Má þar nefna tékkneska þjóninn sem reyndist vera lögfræðingur, og kærasta hennar sem var matreiðslumeistari staðarins. Þessum gisti- og veitingastað er hægt að mæla ákveðið með; þar fæst mikið fyrir peninginn á þessum árstíma.
(7) MAGMA HÓTEL, sem sést á næstu mynd, er um 3 km frá Klaustri. Þetta,er ársgamalt hótel í fögru útsýni yfir lítið vatn. Á staðnum er einnig í boði matur á góðu verði, sem vinalegir staðarhaldarar sögðu okkur frá.
Glacier lagoon – við stoppuðum auðvitað þar á einum vinsælasta ferðamann stað landsins eins og myndin sýnir. Að venju mikið af ferðmönnum og á að giska um 95% erlendir ferðamenn.
(8) HÓTEL JÖKULL Síðustu nóttina var gist á þessu ágæta og afar rúmgóða 60 herbergja hóteli, um 6 km frá Höfn í Hornafirði. Nýir og vinalegir eigendur hafa tekið við hótelinu. Á sumrin verður kvöldmatur einnig í boði.
(9) ÍSHÚSIÐ PIZZERIA er staðsett við höfnina á Höfn, í glæsilegum og “ferskum” húsakynnum. Við fengum okkur góða humarsúpu og mjög gott humarsalat, miklu betra en maður á að venjast á fínni stöðum í Reykjavík. Einnig fengum við ljómandi góða lobster festival og lobster classic pizzu. Þetta eru óhefðbundnar en góðar pizzur, þær vinsælustu á matseðlinum. Góð orka (kannski vegna nálægðar við jöklana!) stafaði frá vinalegri þjónustustúlku sem er einn af eigendum þessa ársgamla veitingastaðar. Eftirtektarvert var að sjá líka hve mikla natni stúlkan lagði við hvern gest og móttöku gesta á staðinn. Þetta er staður sem er þess virði að heimsækja þó ekki væri nema fyrir humarsalatið, fyrir þá sem eru ekki fyrir pizzur.
Við flugum heim með flugfélaginu ERNIR sem við notum oft á ferðum okkar en þeir fljúga til 6 staða úti á landi. Heimilislegt og þægilegt flugfélag þar sem farþegum er boðið upp á kaffi í flugstöðvunum. Eins og síðasta myndin sýnir, tók annar af vinalegum flugmönnum vélarinnar á móti farþegum þegar gengið var um borð.