Veitingastaðurinn Vitinn Sandgerði er staðsettur í 30 ára gömlu húsi, sem fellur vel inní umhverfið og er eitt af þeim ekta í gömlum og „cosy“ anda. Húsið byggðu hjónin og eigendurnir, Stefán Sigurðsson og Brynhildur Kristjánsdóttir, sem leggja mikið uppúr góðri og persónulegri þjónustu en Stefán er jafnframt matreiðslumeistari staðarins.
Á Vitanum eru í boði ýmsir kjöt- og fiskiréttir, smáréttir og barnaréttir. Þar má meðal annars nefna fisk dagsins á góðu verði, einnig margrétta hádegisverðarhlaðborð með góðum heimilsmat alla virka daga. Í heimsókn okkar í þetta sinn vorum við frá veitingastödum.is ásamt 3 gestum frá Singapore. Við fengum okkur krabbaveislu sem er sérstaða staðarins og ekki síst einstök vegna þess að Vitinn er eini staðurinn á landinu þar sem krabbinn er geymdur í sjóvatni þar til hann er pantaður og því kemur hann alltaf ferskur á diskinn.
Í veislunni var fyrst boðið uppá krabbasúpu, kraftmikla og góða, fulla af rækjum, krabbakjöti, skelfisk. Súpan var saðsöm og góð en einhverjum fannst hún of sölt. Í ljós kom þó að ekkert salt er notað í hana, heldur kemur náttúrlegt salt frá krabbanum sjálfum í súpuna. Einum gestinum fannst full mikill rjómi notaður í súpuna en við hin kunnum vel að meta það. Við brögðuðum 4 tegundir af kröbbum sem bornir voru fram með öllu tilheyrandi á flottum 2ja hæða disk og í skel/heilu með sérstökum hnífapörum, töngum og fleiri áhöldum. Í boði var meðal annars rjótakrabbi en einnig beitukóngur, humar og rækjur.
Sérstaklega eftirminnilegar voru öðuskeljar með vinaigrette, lauki og hunangi . Tvær tegundir af sósum, brauð og smjör fylgdu með. Maður þarf að gefa sér góðan tíma í þessa máltíð enda þarf ákveðna lagni við að snæða krabbana og skelfiskinn. Gestirnir frá Asíu báru sig öllu fimlegar við að borða þetta. Í lokin var svo boðið uppá mjúka súkkulaðimús með appelsínuilm sem var ágæt en þó ekki eftirminnileg. Að bjóða uppá slíka veislu sýnir ákveðin metnað eigenda og sérstöðuna sem henni fylgir. Við fengum að skoða krabbana sem geymdir voru í sjóvatni í næsta húsi og litum í leiðinni inn til listamanns sem er með aðstöðu í sömu lengju. Heimsókn í Vitann er upplagt að sameina við ferð í ágæta sundlaug á staðnum sem við nefnilega prófuðum í sumar, einnig er hægt að skoða Fræðasetrið í Sandgerði og etv. Garðsvita í Garðinum sem er í um 6 km fjarlægð frá Sandgerði.