Við hjá veitingastadir.is fórum á dögunum í vettvangsferð á veitingastaðinn Fjöruborðið á Stokkseyri. Staðurinn er í um 45 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík og er það því þægilegur skottúr. Af matseðlinum völdum við annars vegar þriggja rétta humarveislu sem innihélt humarsúpu, 300 grömm af humar ásamt meðlæti og súkkulaðiköku í eftirrétt, og hins vegar 300 gramma humarveislu ásamt meðlæti.
Humarsúpan var góð, fremur kraftmikil og gott sambland af kryddi og humarbragði. Vel ásættanlegur fjöldi af humarbitum var í súpunni, en víða er því ábótavant. Humarinn í aðalrétt
var hnossgæti í munni, borinn fram í potti, kryddaður með arómatískum sítrónupipar og í hvítlaukssmjöri sem hefði reyndar mátt vera ögn minna, en í allt kom rétturinn vel út. Hann var hæfilega eldaður en víða er hann ekki rétt eldaður. Meðlætið samanstóð af kartöflum, salati og kúskús, þar sem kúskúsið vantaði mýkt og salatið hefði mátt hafa dressing úr balsamik ediki fremur en vínediki. Þessi réttur hefði mátt vera ögn betur útilátinn, hafa verður þó í huga að verðlagning var hófleg. Húsakynni Fjöruborðsins eru rúmgóð þar og nokkrir salir í boði fyrir hópa. Þegar við vorum á staðnum var fremur rólegt enda minni umferð á veturna en á sumrin. Þjónustan var góð og viðbragðsflýtir með besta móti hjá hlýlegu starfsfólki.
Í heildina var máltíðin mjög góð og humarinn betri en maður er vanur á stöðum í Reykjavík. Verð er einnig lægra en í Reykavík og maturinn yrði frábær með þeim smá úrbótum sem við nefnum hér. Við fundum hve gott er að komast um stundarsakir út fyrir borgarmörkin. Hægt væri að gera þetta að lengri ferð og gista til að mynda á Hótel Örk í Hveragerði eða Hótel Hlíð í Ölfusi sem er notalegt sveitahótel rekið af sömu aðilum og Örkin.