Við fórum á Vegamót á miðvikudagskveldi og mættum rúmlega 19, það var góð stemming á staðnum og við rétt náðum síðasta borðinu, sem sýnir vinsældir staðarins, sem er bæði veitingahús og bar. Stelpurnar sem þjóna til borðs eru aðlaðandi og veita góða þjónustu.
Við pöntuðum okkur öll 3 sitthvorn réttinn, Við völdum: Fisk dagsins, sem er í boði daglega ásamt 2 öðrum réttum dagsins. Fiskurinn var karfi sem var framreiddur í reyktri chili sósu. Karfinn sem kannski er ekki mest sexy fiskurinn í augum landans var einstaklega góður og sósan frábær með honum, með indverskum keim. Lambafillé var í rauðvínssósu, skammturinn var vel úti látinn og lambið meyrt og gott. Sá þriðji fékk humar ragú með skelfisk, kóngarækjum, humri, blaðlauk, kúrbít, og soja, einnig mjög gott og vel úti látinn skammtur. Það er ekki algent að farið sé á veitingastað við þriðja mann og allir séu svona ánægðir með matinn. Miðað við þessa heimsókn og vinsældir staðarins er ljóst að það er fólk með þann metnað sem vinnur á Vegamótum að gesturinn fari ánægður út. Í eftirrétt deildum við tvö mjög góðri eplaköku með ís, góður endir að deila henni eftir vel heppnaða máltíð. Drykkir voru öl , gos og vatn. Heildarverð fyrir þessa fínu máltíð var aðeins um 8500 kr., þessi fíni fiskur dagsins kostar aðeins um 1600 kr. Það er ekki oft sem maður fer á veitingastað og eina sem maður getur fundið að sé að hugsanlega mætti pipar vera á borðum. Hann kom reyndar að vörmu “spori”, í formi stórs piparstauks frá þjónustustúlkunni. Heildarniðurstaða matar-kvöldið gat ekki verið mikið betra, sannarlega mjög gott virði fyrir peninginn.