Veitingastadir.is og Visitorsguide.is hafa eins og endranær verið á faraldsfæti í sumar. Að þessu sinni einkum um Norðurland. Við höfum meðal annars notfært okkur mjög gott tilboð hjá www.fosshotel.is, þar sem hægt er að kaupa á góðum kjörum passa sem gildir í 3 eða 5 nætur hjá þeirri ágætu keðju. Við mælum með þessum pössum þar sem verð fer niður í um kr. 10.000 fyrir tveggja manna herbergi með morgunmat. Reynsla okkar af hótelunum var góð, við vorum til að mynda á Fosshótel Húsavík á svokölluðum Mærudögum. Hótelið var gott, herbergi rúmgóð og þjónusta góð. Við heimsóttum að sjálfsögðu einhverja veitingastaði í ferðinni einkum á Akureyri. Strikið á Akureyri sem var að venju gott. Einnig Rub23 sem í sumarbyrjun flutti í húsnæði sem áður hýsti Friðrik V. Í forrétt fengum við okkur sushi sem var fínt en þó svipað og maður á að venjast úr höfuðborginni. Einn sushibitinn kom skemmtilega á óvart en það var lítil sushipizza. Í forrétt fengum við okkur túnfisksteik og bland af fiski staðarins. Réttirnir voru báðir ljúffengir og mjög vel úti látnir. Við myndum sérstaklega mæla með réttinum með blandaða fisknum og þjónustan var mjög góð. Einnig sjá veitingstadir.is ástæðu til að mæla með Gistiheimili Akureyrar, Skipagötu þar sem við fengum mjög gott herbergi á efstu með frábæru útsýni. Verðið var einnig sanngjarnt – þetta herbergi var mun betra en í Hafnarstræti þar sem við höfum einnig gist hjá sömu keðju. Við fórum einnig til Vestmannaeyja í 2ja daga ferð. Skemmtileg tilbreyting og gaman að koma þangað. Þó var verð fyrir sérstaklega gistingu og einnig mat reyndar full hátt og greinilegt að aukin eftirspurn hefur leitt til að verð hefur verið hækkað. Það var því miður ekki alveg í takt við gæði. Í Borgarnesi á veitingastað Landnámssetursins fengum við hinsvegar afbragðs góðan mat. Aðalréttur var annars vegar ákaflega góð keila og hinsvegar grillað hrossakjöt! Það kjöt var einstaklega gott og með því betra sem forsvarsmaður veitingastadir.is hefur smakkað.