Við heimsóttum í júlí 2013 hina ýmsu veitingastaði á Akureyri. Bærinn skartaði sínu fegursta þessa daga og gistum við á gistiheimilinu BENEDIKTA í göngugötunni. Óhætt er að mæla með þeirri gistingu enda herbergin bæði rúmgóð og þægileg og staðsetning frábær. Við höfum áður gist líka á HRAFNINUM í Brekkugötu en sömu rekstraraðilar eru að þessum 2 gistiheimilum. Á báðum stöðum, sem við getum mælt með er sameiginlegt eldhús, sem getur þýtt m.a. áhugaverðar samræður við erlenda ferðamenn. Á Hrafninum er á flestum herbergjum sér baðherbergi og íburður aðeins meiri og verð því aðeins hærra.
Fyrsti viðkomustaður okkar var hádegisheimsókn á STRIKIÐ. Þar fengum við okkur fisk dagsins, einnig bleikju og lambasamloku með berneaise og frönskum, súpa fylgdi sem forréttur. Fiskréttir voru einstaklega góðir. Lambasamloka þótti okkur ásættanleg en þó fremur óheilsusamleg. Áherslan er meiri á veitingastöðum fyrir norðan en í höfuðborginni á sósur svo sem kokteilsósur. Skyrköku fengum við okkur sem eftirrétt og var hún sérlega góð. Verð var einstaklega sanngjarnt eða um 1.800 kr. fyrir súpu og aðalrétt, þjónustan var góð og útsýni frábært.
BAUTANN heimsóttum við eitt kvöldið. Þar fengum við okkur súpu dagsins og salatbar auk pitsu með parmaskinku og parmesanosti. Súpa og salatbar þótti okkur ásættanlegt. Pitsan var sæmileg en hefði mátt vera betur bökuð. Í heildina þótti okkur verð fremur hátt miðað við gæði. Þjónusta var í meðallagi.
Einnig heimsóttum við tælenska staðinn KRUA SIAM í Strandgötunni. Þar snæddum við mjög góðar kínarúllur í forrétt. Í aðalrétt djúpsteiktan fisk og kjúkling í karrý. Hvort tveggja gott, verð var ásættanlegt og þjónusta sérstaklega góð og vinaleg.
Í göngugötunni snæddum við tvisvar sinnum á INDIAN CURRY HUT. Grænmetisréttir og kjötréttir voru góðir, einkum grænmetisrétturinn.
Ein besta heimsókn ferðarinnar var þó hádegisheimsókn á KUNG FU við Ráðhústorgið. Þar borðuðum við japanskan hádegisverð, sushi – kjöt á spjóti og ís, allt framborið á einum bakka. Verð var aðeins 1.690 krónur fyrir frábæran rétt. Sushi réttur fyrir barn á tæplega 1.000 krónur var einnig fínn.
Þá var góðum og vel útilátnum plokkfisk sporðrennt á veitingahúsinu GREIFANUM. Kjúklinganaggar fyrir barnið hittu þó ekki í mark en íspinni vakti lukku. Við fórum einnig í litla cosy og indæla ísbúð; Litlu ísgerðina alveg í miðbænum, þar var hinn heimatilbúni vínar-ís einstaklega góður og allt snyrtilegt og fínt. Unga afgreiðsludaman var sérlega indæl og liðleg. Ljóst að það þarf alls ekkert að keyra út fyrir miðbæinn í Brynju ísinn, sem við heimsóttum einnig til að fá góðan ís.
Þessa daga í júlí var veður frábært á Akureyri, sem gerir flest ferðalög innanlands góð. Sundlaugin var auðvitað heimsótt og einnig góð sundlaug í Þelamerkurskóla um 8 km. fyrir utan bæinn. Þetta var því einstaklega góður tími sem við áttum á Akureyri, en ferðalög innanlands kosta auðvitað sitt og maður þarf að hafa varann á til að eyðsla fari ekki úr böndunum.
Hægt er að sjá lista yfir nær alla veitingastaði á Akureyri á www.veitingastadir.is , einnig eru upplýsingar um þá flesta í kafla í Visitors Guide bókinni. Svo er upplagt að prenta þetta yfirlit fyrir þá sem ætla norður á bóginn