Við fórum í ferð norður í land frá fimmtudegi til sunnudags undir lok júní, þar sem bókinni okkar var dreift á enn fleiri staði en R3 dreifing dreifingarfyrirtæki okkar á landsbyggðinni dreifir. Einnig til að hitta nokkra viðskiptavini og hitta nokkra vænlega. Síðast en ekki síst til að taka út nokkra veitingastaði fyrir vefsíðuna okkar. Fyrsti viðkomustaður okkar var N1 stöðin á Húsavík þar sem framkvæmdastjórinn sem er þó í heilsuátaki fékk sér tilboð sem var samloka með frönskum (kók og prins polo fylgdi með), verð kr 1150. Þetta var mjög gott og óvenju vel steiktar og stökkar franskar kartöflur. Öllu hollari var næsti viðkomustaður sem var NAUSTIÐ – heimilislegur staður við höfnina. Þar var snædd sérlega góð sjávarréttasúpu með brauði sem kostaði 1500 krónur, verð sem er undir landsmeðaltali en að sama skapi voru gæðin töluvert yfir meðaltali.
Á Akureyri fórum við fyrsta kvöldið á veitingastaðinn STRIKIÐ. Útsýnið frá staðnum var frábært enda veður með eindæmum gott. Í forrétt fengum við góða humarsúpu og mjög gott nauta carpaccio. Í aðalrétt rosalega gott sushi og nautalund, sem þó var alls ekki nógu góð greinarhöfundur fékk nýja í staðinn sem var skárri en þó ekkert til að hrópa húrra fyrir. Eftirréttur sem var samansafn eftirrétta var hins vegar frábær. Þjónustan var einstaklega lipur og fagmannleg. Í hádeginu var KUNG FU SUSHI – sem er sushi staður við Ráðhústorgið heimsóttur, sushið var að þessu sinni la la gott þar hefur oft verið betra. Hinsvegar var hrossa fille stick einstaklega gott og hægt að mæla með því. GREIFINN var heimsóttur á laugardagskveldi og svo heppilega vildi til að við hittum á fólk með börn sem við þekktum og sátu með okkur. Þau voru mjög ánægð með sinn rétt og verð var gott, ekki síður ánægð með íspinnan sem fylgdi á eftir. Þau fullorðnu skipti á milli sinni þunnbotna pitsu með spelt, staðurinn fær prik fyrir að bjóða uppá slíkt. Hún var fín en þó full lítið bökuð, sem maður tók vel eftir þegar líða fór á flatbökuna. Súpa dagsins var á góðu verði og bragðmikil og góð. Ungar þjónustustúlkur á staðnum voru mjög vinalegar og þjónustuliprar.
Á heimleið suður var stungið inn nefið á POTTINN Blönduósi sem við gáfum bækur enda auglýsir staðurinn í þeim, vinaleg þjónustustúlka gaf greinarhöfundi smá salat af salatbar sem var mjög gott, einnig smakk af súpu dagsins sem var ágæt en þó eins og stundum vill bregða við full mikið notað af hveiti í hana. Kvöldverðurinn á sunnudeginum var á Hvammstanga á veitingastaðnum Hlöðunni þar fengum við einstaklega kraftmikla og bragðmikla súpu, mjög góða bleikju á verði talsvert undir því sem gengur og gerist í höfuðborginni og kjúklingaböku sem var bara rétt svona þokkaleg. Eigandinn tjáði okkur að hún væri aðkeypt (og upphituð) en allt annað framreitt á staðnum.
Þessa umfjöllun er upplagt að prenta út og taka með í hugsanlegt ferðalag norður í land í sumar :).