Í hjarta bæjarins að Austurgötu 7, er Kaffi Krús, einstaklega hlýlegt kaffihús og veitingastaður á tveimur hæðum. Húsið sem í dag hýsir Kaffi Krús var byggt árið 1931, þegar Selfossbær var í örum vexti. Húsið var lengi íbúðarhús en frá árinu 1992 þegar Kaffi Krús opnaði dyr sínar fyrst fyrir matargestum hefur staðurinn verið vinsæll viðkomustaður þeirra sem leið eiga um Selfoss. Að sumarlagi er sólpallurinn fyrir framan húsið gjarnan þéttsetinn fólki. Húsið hefur verið tekið fallega í gegn í stíl sem rímar við þann tíma sem það var byggt. Á gólfum eru falleg viðargólffjalir, á veggjum eru útskornar viðarþiljur.
Kaffi Krús býður upp á veglegan matseðill með um 60 mismunandi réttum, þar af eru yfir 20 tegundir af safaríkum hamborgararéttum þar sem aðaluppistaðan er hágæða nautakjöt, gjarnan skreytt með einstöku og óvenjulegu meðlæti eins og béarnaise-sósu, Parma-skinku og hvítlauksristuðum humri. Mikið úrval pastarétta er einnig á matseðli Kaffi Krúsar og þegar rennt er yfir pizzurnar, sem allar eru eldbakaðar sést að þar fær spennandi hráefnaval sannarlega einnig að njóta sín. Karlson, ein af vinsælustu pizzum staðarins, státar til dæmis af þunnt skornu nautakjöti, béarnaise-sósu og frönskum. Á matseðli eru einnig ferskir salatréttir, fisk- og kjúklingaréttir. Á eftirrétta matseðli eru yfir 10 tegundir af heimabökuðum tertum sem sumar hverjar státa af aldagömlum uppskriftum úr héraði en einnig ostakökur sem unnir hafa til verðlauna í árlegri ostakökusamkeppni Kaffi Krúsar. Verðið á réttum er stillt í hóf. Pizzur eru á verðbilinu 2-3.000 krónur, pastaréttir og hamborgarar einnig. Réttur dagsins var á 3.490 kr.
Við prófuðum fisk dagsins sem var lúða með einstaklega góðu meðlæti, vel útilátið og fallega framreitt (eins og reyndar allir réttirnir), Pizza Verona sem okkur var sagt að væri vinsælasta pizza staðarins og Kaffi Krúsarborgara sem var mjög vel útilátinn með alvöru frönskum. Einnig prófuðum við góðan humarrétt í forrétt.
Sömu aðilar og eiga og reka Tryggvaskála eiga Kaffi Krús. Þjónustan var vinaleg og vel var tekið í séróskir. Á vefsíðu staðarins, sem þó mætti prófarkalesa betur kaffikrus.is, er að finna matseðil hússins, sérstakan take-away matseðil og upplýsingar um veisluþjónustu Kaffi Krúsar.