Sumarið 2011 opnaði landsliðskokkurinn og sjónvarpsstjarnan Hrefna Rósa Sætran ásamt fleirum nýjan veitingastað, Grillmarkaðinn í Lækjargötu í nýju fallegu bakhúsi á 2 hæðum. Húsið hefur verið skemmtilega endurbyggt í gömlum stíl eftir brunann fyrir nokkrum árum í Lækjargötunni. Guðlaugur Frímannsson eða Gulli sem áður hefur starfað hjá Hrefnu er yfirmatreiðslumaður staðarins. Umfjöllun þessi byggist á heimsókn okkar í nóvember, en einnig verður minnst stuttlega á aðra heimsókn fyrr um haustið. Það var hlýtt og notalegt að koma inn á Grillmarkaðinn á köldu vetrarkvöldi og skemmtileg upplifun ein og sér að virða fyrir sér frumlega og skemmtilega hönnun veitingastaðarins, sem er hannaður af Leifi Welding. Hann hefur hannað mörg skemmtileg veitingahús á undanförnum árum s.s. Fiskfélagið, Fiskmarkaðinn og UNO. Í hönnun staðarins er notaður þjóðlegur efniviður, s.s. stuðlaberg, fiskroð og mosi, lýsingin er einnig mjög flott.
Matseðilinn er byggður á hráefni beint frá bónda. Við fengum okkur aðeins einn forrétt til að deila sem var Hrefnusteik fá Hrafnseyri í terryaki sósu, sérlega bragðgott og meyrt kjöt. Réttur sem við mælum hiklaust með og fær yfir 9 í einkunn, ekki síst þar sem hann er mjög vel útilátinn og dugir klárlega fyrir 2, eða jafnvel fleiri sem smakk. Við vorum þrjú af fjórum sem fengum okkur fiskréttar-matseðil Fisksælkerann, sem samanstendur af 3 tegundum af fiski þ.e. grillaður skötuselur, laxasteik, og saltfiskur, sem var hver öðrum ljúffengari. Sá fjórði pantaði saltfisk sem aðalrétt, sem var fallega fram borinn en reyndist full saltur. Við kvörtuðum yfir því og þjónarnir brugðust við til fyrirmyndar og komu með annan skammt sem reyndist reyndar líka full saltur fyrir smekk viðkomandi. Sami fiskur var hinsvegar í góðu lagi í þriggja fiska máltíðinni. Þjónarnir voru boðnir og búnir að gera allt fyrir okkur og þjónustustúlkan tók ekki í mál að greitt væri fyrir saltfiskréttinn, eitthvað sem maður er ekki sérlega vanur svona að fyrra bragði. Þess utan bað aðalmatgæðingurinn, sem er sérlega illa við að láta mat fara til spillis um “doggy bag” fyrir afgangana.
Að lokum fengum við afar ljúffenga og vel útilátna smakk deserta fyrir allt borðið, Bland í poka, sem var borið fram á stórum steini og kom mjög vel út. Sérlega góður réttur sem fær 9,5 í einkunn. Þjónustan þetta kvöld var alveg til fyrirmyndar. Slíkt og reyndar oft gæði matar er mun oftar raunin þegar farið er í miðri viku fremur en um helgar þegar allir staðir eru fullbókaðir. Fyrr í haust fór framkvæmdastjóri Veitingastadir.is við þriðja mann á veitingastaðinn um helgi. Við vorum ekki eins ánægðir þá, þjónustan var reyndar góð og fiskrétturinn sem var pantaður líka, hinsvegar voru þeir tveir sem fengu sér lambakjötsrétt rétt í meðallagi ánægðir. En þetta kvöld fengum við góðan mat og stemmingu á flottum stað, þar sem markmiðið var greinilega að gera gestinn ánægðan. Þess ber geta að þjónustustúlkan vissi ekki að við værum frá Veitingastadir.is fyrr en við sögðum henni það í lokinn.