Í Reykholti í uppsveitum Borgarfjarðar er Fosshótel Reykholt, sem er hluti af 10 hótela Fosshótel keðjunni. Við heimsóttum hótelið bæði um helgi í júní og eina nótt í byrjun ágúst. Staðsetning hótelsins er á einum af menningarlega merkustu stöðum á Íslandi þar sem sjálfur Snorri Sturluson bjó. Hótelið tekur ákveðið mið af nágrenninu og er með menningarlegu og heilsutengdu þema þar sem gestir geta endurnært líkama og sál. Það er gott þriggja stjörnu ferðamannahótel sem er opið allan ársins hring og því kjörin áfangastaður fyrir þá sem vilja gera sér dagamun og skipta um umhverfi. Herbergin eru þrátt fyrir að vera pínu gamaldags bæði mjög rúmgóð og hlýleg. Aðstaðan á hótelinu er góð og til að mynda eru í boði góðir nuddstólar í kjallaraálmu sem og heitir pottar og fleira.
Margt er að skoða á staðnum og í næsta nágrenni. Þar ber hæst að nefna Snorrastofu, glæsilega kirkju og Snorralaug. Fleira áhugavert er í nágrenninu svo sem Deildartunguhver sem er vatnsmesti hver landsins. Þá eru hinir fögru Barnafossar í um 15 kílómetra fjarlægð og ef ekið er enn lengra inn Reykholtsdalinn má finna vinsælan áfangastað ferðafólks Húsafell. Þar er bæði ágæt sundlaug, veitingastaður og sjoppa. Við ókum skemmtilegan hring um svæðið þar sem ekið var inn Hvítarsíðuna og komið við á Háafelli. Þar er langstærsta geitabú landsins með um 180 geitur og afkvæmi. Hægt er að skoða þær, smakka á geitaosti og fleiri afurðum. Þá ókum við áfram innað Húsafelli en þar skammt frá er Surtshellir sem ekki náðist þó að skoða í þessari ferð þar sem sundlaugin var valin á þessum sólríka degi. Þess má geta að einnig er sundlaug á Kleppsjárnreykjum sem er í aðeins 5 km. fjarlægð frá Reykholti.
Við snæddum á hótelinu eitt kvöldið. Grænmeti kemur allt úr héraðinu en mikil ræktun er á grænmeti í gróðurhúsum og matjurtagörðum á svæðinu. Í forrétt fengum við taðreykt hangikjöt borið fram með sultuðum rauðlauk og grafið hrossafille borið fram með bláberjum og piparrótarmauki. Báðir réttirnir voru ágætir og svona aðeins„öðruvísi“ en skammtar kannski helst til litlir. Í aðalrétt fengum við annars vegar rósmaríngljáð lambafille, borið fram með kartöflu og pönnusteiktu grænmeti. Það fannst okkur helst til of mikið steikt, þó það falli betur i fjöldann. Hinsvegar snæddum við saltaðan þorskhnakka með möndlu-og parmesanhjúp borið fram með Reykholts Ratatouille. Það var sérstaklega gott og besti rétturinn að okkur fannst. Sömu ánægju urðum við áskynja á næsta borði með réttinn hjá hjónum sem þar sátu – og einnig með skyrkökuna sem þau fengu í eftirrétt. Ungviðið fékk barnapítsu með sósu og osti, sem hefði mátt vera meira spennandi. Í eftirrétt var ístvenna frá Erpsstöðum með ávöxtum sem var mjög góð. Einnig heit súkkulaðikaka með ís frá Erpsstöðum. Kakan hafði gott súkkulaðibragð og bragðgóður ís fylgdi. Þjónar og starfsfólk voru mjög vinsamleg, en aðeins skorti á þekkingu á stöku sviðum eins og gjarnan kemur fyrir úti á landi, enda kannski ekki mikið þar um faglærða þjóna. Áhugavert var þó að sjá hversu víða af landinu starfsfólk sem við spjölluðum við kom frá.
Í heildina voru þetta ánægjulegar ferðir í góðu umhverfi og gott hótel þar sem ýmislegt er í boði og mjög margt að skoða í nágrenninu. Við komum þarna áður fyrir nokkrum árum, sem var fínt en heildarupplifunin, þjónustan og fleira var betri núna.