Í Reykholti í uppsveitum Borgarfjarðar er starfrækt Fosshótel Reykholt, sem er hluti af Fosshótel keðjunni sem telur 9 hótel. Þar er rekið menningartengt hótel, enda er staðsetningin á einum af menningarlega merkustu stöðum á Íslandi. Hótelið er þriggja stjörnu ferðamannahótel sem er opið allan ársins hring og því kjörin áfangastaður fyrir þá sem vilja gera sér dagamun. Við heimsóttum Reykholt í lok apríl. Á hótelinu er veitingastaðurinn Valhöll, sem fylgir þeirri stefnu að bjóða sem mest upp á rétti sem matreiddir eru úr hráefni sem kemur af svæðinu. Þar er um auðugan garð að gresja enda mikil ræktun á grænmeti í gróðurhúsum og matjurtagörðum í nágrenninu, auk hefðbundinnar kjöt- og mjólkurframleiðslu. Bygg er ræktað skammt frá Reykholti sem nýtt er í brauðbakstur og meðlæti með réttum. Bakvið hótelið er svo stærsti matskógur á Íslandi, og þar fást fjöldi tegunda af sveppum, kryddjurtum og jurtum.
Við snæddum á veitingastaðnum og prófuðum alla þrjá aðalréttina á matseðlinum; saltfisk, lamb og kjúkling. Klárlegur sigurvegari kvöldsins var saltfiskurinn, sem var feykigóður. Honum var lýst sem möndlu og parmesan hjúpuðum saltfisk með grænmetis ratatouille og kartöflumús íslenskum kartöflum. Einnig var stór sneið af tómat, og vakti þetta góða lukku hjá viðstöddum. Saltfiskurinn var vel eldaður, mjúkur og safaríkur, og rétt útvatnaður með mildu saltbragði. Lambakjötið var fillet, steikt og svo ofnbakað með rósmarín gljáa, á beði úr rótargrænmeti og fondant kartöflum. Kjötið var vel steikt með mildum rósrauðum gljáa í miðjunni. Það var mjúkt og bragðaðist vel með meðlætinu og góðri sósu. Einna sístur þótti kjúklingurinn, sem var grilluð bringa með villisveppa bygg „otto“, sem höfundur hélt fyrst að væri risotto úr heilum hrísgrjónum, og ferskum kryddjurtum. Kryddjurtirnar voru að sjálfsögðu ræktaðar í nágrenninu. Kjúklingabringa og soðið bygg er í grunninn frekar bragðlítið hráefni, og villisveppir eru ekki bragðsterkir, svo að þau þola djarfari og bragðmeiri kryddun en með grænum, norðlægum kryddjurtum á borð við rósmarín og timian. Í eftirrétt var heit súkkulaðikaka með tvílaga ís. Kakan hafði milt súkkulaðibragð, en ísinn var vanilluís á efri hæðinni, og með skógarberjum á neðri hæðinni, sem voru gerðir á að Erpsstöðum og voru mjög bragðgóðir.
Á vínseðlinum voru nokkrar tegundi, hægt var að kaupa heila flösku eða borðvín á litlum flöskum af algengri gerð. Þessi vín voru ágæt en ekki mikil uppgötvun fyrir sérstaka vínunnendur, enda slík vín gjarnan dýrari. Þjónar og starfsfólk voru vinsamleg, en aðeins skorti á þekkingu á stöku sviðum, helst varðandi vínseðilinn. Það má eflaust skrifa á að þau voru nýbyrjuð og verða eflaust búin að sjóast betur í sumar. Í heildina var þetta afar ánægjuleg ferð að breyta um umhverfi og fara á gott hótel og gera vel við sig í mat og góðri afslöppun. Fyrir utan að vera menningartengt hótel felst sérstaða hótel Reykholts í heilsusetri þar sem gestir geta endurnært líkama og sál.