Fiskmarkaðurinn er einn af vinsælustu og svölustu veitingastöðunum í Reykjavík. Hann er staðsettur í gömlu fallegu uppgerðu húsi í Aðalstræti við hliðina á gamla Fógetanum. Kokkurinn og annar eiganda staðarins er Hrefna Rósa Sætran sem flestir Íslendingar kannast eflaust orðið við eftir matreiðsluþættina á Stöð 2 og gaskútaauglýsingar í sjónvarpi.
Það er þægilegt, hlýlegt asískt andrúmsloft sem svífur yfir vötnum þegar inn er komið. Í hönnunina er notuð blanda af brenndri eik, stuðlabergi og mildri lýsingu sem lýsir upp grænar plöntur og bambus.
Eins og nafnið bendir til er uppistaðan í matseðlinum sjávarréttir, kryddaðir með spennandi kryddum. Ferskasta hráefnið á hverjum tíma, beint frá bónda er notað í réttina til að tryggja ferskleika og gæði. Þjónustan er afslöppuð og góð og eldamennskan er blandstíll eða fusion, blanda af asískri, franskri og íslenskri matreiðslu. Smakkseðilinn eða tasting menu sem við prófuðum er spennandi matseðlill sem Hrefna og fólkið hennar hefur sett saman, veisla fyrir augu og bragðlauka og gefur gott tækifæri til að smakka sitt lítið af hverju af matseðlinum úr ferskasta hráefninu sem er fáanlegt á hverjum tíma.
Veislan okkar sem vorum 3 saman þegar við heimsóttum staðinn, hófst á grilluðum kóngakrabba með chilli mæjónesi og gufusoðnum krækling frá Hrísey, hvorutveggja afar bragðgott og ferskt . Síðan voru borin fram grilluð grísarif með salthnetum, vorlauk og bbq sósu, grísarif þessi geta svo sannarlega komið manni á bragðið , jafnvel þeim sem eru ekki sérlega mikið fyrir þau eins og einn í hópnum hafði að orði. Að því búnu fengum við wasabi salad og afar ljúffenga blöndu af sushi og sashimi. Fyrstu tveir aðalréttirnir voru lax úr Þjórsá með misó og lauk pakoda og nætursaltaður þorskur borinn fram með fenniku, sætkartöflusalati og appelsínusósu, báðir þessir réttir bókstarflega bráðnuðu í munni og voru með betru fiskréttum sem við höfðum smakkað. Síðasti aðalrétturinn var grillað lambafille frá Kópaskeri, sem var ágætt en þó ekkert frammúrskarandi. Í eftirrétt fengum við úrval eftirrétta staðarins, afskaplega litskrúðugt og fallega framborið, ferkst og ljúffengt eftir því eins og reyndar allt sem við höfðum fengið á “tasting “matseðlinum.
Almennt er Fiskmakaðurinn staður sem fólk ætti ekki að láta fram hjá sér fara þegar viðkomandi hefur áhuga á að gera sér dagamun í mat og drykk. Eldamennskan er í hæsta gæðaflokki, þjónustan er afskaplega fagleg og vinaleg og andrúmsloftið er hlýlegt og jafnframt afslappað. Það er líka í boði spennandi hádegisverðarseðill á hagstæðu verði.